Einstaklingar
Við bjóðum upp á fjölbreytta þjónustu fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur í formi viðtalsþjónustu
Við bjóðum upp á fjölbreytta þjónustu fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur í formi viðtalsþjónustu
Við þekkjum öll til kvíða. Flest okkar hafi kviðið fyrir einhverju prófi, að fara í atvinnuviðtal eða þá til læknis svo dæmi séu nefnd. Það er kvíði sem við vitum ástæðuna fyrir og kvíði sem gengur yfir. Við hættum að kvíða fyrir prófinu þegar það er búið.
Kvíði getur verið allt frá því að finna fyrir smá óróleika til að upplifa kvíðakast og ofsahræðslu. Það eru margvíslegar og oft einstaklingsbundnar ástæður fyrir kvíða. Sumir geta þróað með sér kvíða vegna eins ákveðins atviks sem hefur gerst í lífi viðkomandi en oftast eru það fleiri atriði sem spila inn í. Oft gerir maður sér ekki grein fyrir því sjálfur hvað veldur kvíðanum.
Því meiri streitu sem manneskja upplifir því hættara er við að hún þrói með sér kvíða.
Kvíða fylgja oftast líkamleg einkenni. Líkaminn bregst við eins og við værum í hættu. Einkennin geta til dæmis verið hraður hjartsláttur, ör andardráttur, þurrkur í munni og skjálfti. Allt eru þetta einkenni sem auðvelda okkur að flýja eða berjast. Blóðið streymir út í útlimina og við erum tilbúin að taka á sprett. Við erum í aðstöðu sem við viljum ekki vera í og líkaminn gerir allt til að komast úr henni. Líkaminn veit ekki hvort hættan er raunveruleg eða ekki. Þegar verst er geta einkennin verið svo slæm að maður heldur að maður sé að deyja.
Þetta getur valdið því að maður fer að verða hræddur við sjálf einkennin eins og hraðan hjartslátt. Þá getur það verið nytsamlegt að gera sér grein fyrir að einkennin eru kvíðakast og vita að ekki er hægt að deyja úr kvíða þó að líðanin segi eitthvað annað. Oft er best að einbeita sér að því að róa andardráttinn og jafna sig smám saman.
Kvíði hefur áhrif á hvernig við hugsum og hvað við gerum. Hann veldur því að við miklum hlutina fyrir okkur og hann getur farið að stjórna því hvernig við högum okkur. Dæmi um þetta er þegar við förum að forðast ákveðnar aðstæður t.d. hættum að fara á mannamót. Annað dæmi getur verið þegar við erum stöðugt á fullu og eigum erfitt með að gefa okkur rólega stund.
Áhyggjur geta leitt til kvíða og oft eru það hugsanir um mögulega hættu sem endurtaka sig í sífellu. Hræðslan við hvað gæti gerst ef….
Stundum gera kvíðaköstin ekki boð á undan sér en oft er maður búinn að búa við mikla streitu í langan tíma áður en þau koma.
Títt hellast áhyggjurnar yfir mann þegar maður er að fara að sofa og sumir vakna á nóttunni og geta ekki sofið fyrir áhyggjum. Þá er gott ráð að hafa pappír og penna á náttborðinu og skrifa niður stikkorð um hvað áhyggjurnar snúast. Síðan gerir maður samning við sjálfan sig og ákveður tíma næsta dag þar sem maður tekur frá 10-20 mínútur til að hugsa um áhyggjuefnið. Þetta verður að vera alvöru samningur þar sem maður veit af lausum tíma daginn eftir. Þetta hefur reynst mörgum vel, það hjálpar að skrifa stikkorðin því þá veit maður að hlutirnir gleymast ekki og maður veit að það er hvort sem er lítið hægt að gera um miðja nótt annað en að sofa. Áhyggjurnar verða oft minni í dagsljósi og maður á auðveldara með að koma auga á lausnir á vandamálunum.
Ekkert okkar lifir áhyggjulausu lífi og það er kannski heldur ekkert eftirsóknarvert að vera alveg laus við áhyggjur því þær geta fengið okkur til að hugsa fram á við og planleggja. Líkami og sál eru svo samtvinnuð að við getum reynt að fyrirbyggja kvíða með því að vera góð við okkur sjálf. Það er mikilvægt:
Almenn kvíðaröskun einkennist af miklum og þrálátum áhyggjum um margs konar hluti. Fólk með almenna kvíðaröskun á gjarnan von á hörmungum og er með miklar áhyggjur, svo sem af peningum, heilsu, fjölskyldu sinni, vinnunni eða öðru.
Einstaklingar með almenna kvíðaröskun eiga í miklum vandræðum með að stjórna kvíða sínum. Þeir geta einnig haft meiri áhyggjur en eðlilegt gæti talist um raunveruleg atvik eða geta búist við því versta þegar ekki er ástæða til.
Í sumum tilfellum er tilhugsunin um það eitt að komast í gegnum daginn nóg til að vekja kvíða. Einstaklingar með almenna kvíðaröskun geta gert sér grein fyrir því að þeir séu með óraunhæfan kvíða, en geta engu að síður ekki náð að stjórna honum. Fólk með röskunina reynir því gjarnan að ákveða fyrirfram eða stjórna aðstæðum. Almenn kvíðaröskun er greind þegar einstaklingur á í erfiðleikum með að stjórna kvíða sínum flesta daga, í meira en hálft ár.
Rannsóknir benda til þess að félagskvíði sé með algöngustu kvíðaröskunum. Félagskvíði er mikill ótti, kvíði og óöryggi sem skapast við það að vera innan um fólk. Kvíðavaldurinn er að vera í fjölmenni og þegar athygli fólks beinist að einstaklingnum sjálfum. Sá sem er félagsfælinn er er haldinn gríðarlegum ótta um að niðurlægja sig eða verða sér til skammar. Sá sem er félagsfælinn er er haldinn gríðarlegum ótta um að niðurlægja sig eða verða sér til skammar; hræðist til að mynda að roðna, stama eða segja eitthvað „vitlaust“ og vera í framhaldinu dæmdur af öðrum. Afleiðingar félagsfælni valda því að viðkomandi getur ekki slakað á og notið þess að vera í félagslegu samneyti, því öll hans athygli er á honum sjálfum en ekki samskiptunum. Segja má að sá sem er félagsfælinn “njósni” um sjálfan sig; hvað hann segir, hvernig hann ber sig og viðbrögð annarra við því.
Birtingarmynd félagsfælni er margskonar. Einstaklingur sem haldinn er félagsfælni getur átt í erfiðleikum með ástarsambönd, sem getur leitt til mikillar vanlíðunar. Þá er sá sem haldinn er félagsfælni líklegri en aðrir til þess að eiga fáa vini, meðal annars vegna þess að félagsfælnin hamlar þeim í samskiptum sem og að eiga frumkvæði að samskiptum. Félagsfælni getur valdið lágu sjálfsmati, einmanaleika og depurð. Þá getur félagsfælni valdið erfiðleikum í námi, atvinnuleit og haft neikvæð áhrif á starfsframa. Leiti viðkomandi sér ekki aðstoðar aukast líkurnar á einangrun og þunglyndi. Hugræn atferlismeðferð er gagnreynd aðferð sem hefur sýnt fram á góðan árangur í meðferð við félagsfælni.
Ofsakvíði einkennist af endurteknum kvíðaköstum sem virðast koma fram fyrirvaralaust og ná hámarki á nokkrum mínútum. Þegar einstaklingur fær ofsakvíðakast verður viðkomandi mjög óttasleginn og finnur fyrir sterkum líkamlegum einkennum að tilefnislausu. Algeng líkamleg einkenni sem fólk finnur fyrir eru hraður hjartsláttur, sviti, svimi, andnauð og skjálfti. Þegar fólk upplifir þessi einkenni grípur það skiljanlega mikil hræðsla og telur það einkennin vísbendingu um að eitthvað alvarlegt sé að. Í kjölfarið óttast fólk að fá frekari köst og reyna gjarnan að forðast aðstæður eða athafnir þar sem það gæti fengið fleiri köst.
Einn af hverjum tíu fær kvíðakast a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni. Margir fá kvíðaköst í nokkur skipti og hætta svo alveg að fá þau en hjá sumum er þetta langvarandi vandamál.
Meðan á kvíðakasti stendur geta sum eða öll eftirfarandi einkenna komið fram:
Flest okkar hafa áhyggjur af heilsunni á einhverjum tímapukti. Það er í raun í eðli okkar að vera vakandi fyrir hættum, bæði í umhverfinu og innra með okkur. Áhyggjur af heilsunni geta aftur á móti stigmagnast og vaxið þannig að einstaklingurinn á erfitt með að ráða við þær og þær skerða getu hans til að taka þátt í lífinu og njóta því til fulls. Slíkar áhyggjur kallast heilsukvíði.
Algeng einkenni heilsukvíða eru meðal annars:
Mikilvægt er að hafa í huga að heilsukvíði er ekki spuring um skert innsæi eða til marks um ranghugmyndir hjá fólki með heilsukvíða. Flestir átta sig á því að þessar hugmyndir eru ekki á rökum byggðar. Engu að síður gengur þeim illa að losa sig við áhyggjurnar og „hvað ef?“ tilfinninguna sem þeim fylgir.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) við heilsukvíða er gagnreynd meðferð sem vinnur með þá þætti sem valda því að áhyggjurnar leiti sífellt og aftur á einstaklinginn. Hún vinnur þannig á viðhaldandi þáttum heilsukvíðans og miðar að því að draga úr áhyggjunum sem liggja honum til grundvallar.
Það er eðlilegt að upplifa kvíða tengdan námi, t.d. fyrir próf, og kvíði í hæfilegu magni getur jafnvel haft jákvæð áhrif á frammistöðu þar sem hann getur orðið til þess að þú undirbýrð þig betur, og aukið einbeitingu. Ef kvíðinn er orðinn of mikill hefur hann truflandi áhrif á námið. Þú getur átt í erfiðleikum með að muna námsefnið og í prófinu sjálfu getur þú átt erfitt með að sýna það sem þú kannt.
Helstu ástæður fyrir prófkvíða eru lágt sjálfsmat sem leiðir til efasemda um eigin getu, ótti við að mistakast og fyrri saga um fall eða lélega útkomu. Í kjölfar neikvæðra hugsana fylgir oft forðun, við ýtum hlutum á undan okkur því tilhugsunin um að takast á við þá er of yfirþyrmandi. Þetta getur þá leitt til þess að við erum ekki nægilega undirbúin fyrir próf sem eykur þá enn á kvíðann.
Ýmis algeng einkenni prófkvíða eru:
Hugræn: Finnast þú “frjósa” (blank-out), erfiðleikar með einbeitingu, hugsanir á fullu og erfitt að henda reiður á þær, neikvætt sjálfstal og efasemdir um eigin getu, og að bera sig saman við aðra.
Líkamleg: Höfuðverkir, ógleði og/eða niðurgangur, hraður hjartsláttur, sviti, svimi, og/eða munnþurrkur.
Tilfinningaleg: Mikill ótti, hjálparleysi og vonbrigði.
Rannsóknir sýna að Hugræn atferlismeðferð (HAM) reynist vel við prófkvíða. Sálfræðingur getur leitt þig í gegnum og hjálpað þér að takast á við þær hugsanir sem geta verið að koma upp hjá þér og stuðla að prófkvíða. Að sama skapi er mikilvægt að huga að öðrum þáttum eins og námstækni, passa upp á svefninn, næra sig vel og stunda einhvers konar hreyfingu, og gera slökunaræfingar.
Depurð, sorg og vonbrigði eru hluti af eðlilegri líðan mannsins. Oftast ganga þessar tilfinningar yfir. Sé vanlíðanin langvinn, með viðvarandi depurð og vonleysi sem leiðir til skerðingar í lífi einstaklingins – þá er um alvarlegt þunglyndi að ræða. Helstu einkenni þunglyndis eru eftirfarandi:
Þó skal hafa í huga að birtingarmynd þunglyndis getur verið breytileg milli einstaklinga.
Mikilvægt er að leita sér aðstoðar vegna þunglyndis. Þunglyndi getur staðið yfir í langan tíma og miklar líkur eru að það endurtaki sig sé ekkert gert.
Samtalsmeðferð er áhrífarík meðferð sem miðar að því að draga úr einkennum þunglyndis og vinna úr sektarkennd, óöryggi, áföllum og annarri innri vanlíðan. Þannig er stuðlað að því einstaklingurinn nái fyrri getu og virkni á sama tíma og dregið er úr áhættu á endurteknu þunglyndi
Ég átti svartan hund, nafn hans var þunglyndi
Hér fyrir neðan má finna áhugavert fræðslumyndband sem byggt er á bók Matthew Johnstone og var unnið í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (e. World Health Organization ).
Matthew Johnstone gekk sjálfur í gegnum þunglyndi. Í dag er Matthew vinsæll fyrirlesari um allan heim.
Bókin er til í íslenskri þýðingu og heitir Ég átti svartann hund, nafn hans var þunglyndi. Hægt er að kaupa bókin á skrifstofu Geðhjálpar, Borgartúni 30.
Talað er um áfallastreitu þegar manneskja hefur orðið fyrir skelfilegri lífsreynslu, svo sem orðið vitni að vofeiflegum atburði, lent í líkamsárás eða nauðgun, valdið slysi og fleira. Viðkomandi getur þá fyllst hjálparleysi, ótta eða hryllingstilfinningu.
Einkenni áfallastreitu eru:
Áfallastreitueinkennin líða oftast hjá og eru ekki flokkuð sem geðröskun.
Það er í eðli manneskjunnar að hafa gaman af því að breyta vitundarástandi sínu. Til þess notum við margar leiðir, svo sem að fara í skemmtigarða, fara í veislur, spila á spil eða neyta efna á borð við áfengi, tóbak eða önnur lyf. Að lyfta sér upp í hverdeginum getur verið gaman. En þegar neysla okkar eða hegðun fer að trufla daglegt líf og virkni eða valda skaða á einhvern hátt, þá er neyslan komin úr böndunum. Talað er um fíkn þegar neyslan hefur áhrif á líf okkar með því trufla vinnu, samskipti eða eigin heilsu.
Þegar um fíknivandamál er rætt dettur flestum í hug vímuefni eða lyf, en í raun má segja að hægt sé að þróa með sér fíkn í hvaðeina sem hægt er að nota til að breyta tilfinningaástandi. Þannig er oft talað um spilafíkn, kaupfíkn eða líkamsræktarfíkn.
Fíkn getur því verið bæði líkamleg og andleg. Þegar um líkamlega fíkn er að ræða hefur líkaminn vanist því að ákveðið efni sé til staðar, svo þegar neyslu efnisins er hætt eða neyslan minnkuð, koma fram fráhvarfseinkenni. Fólk myndar þol gagnvart efninu sem fíknin beinist að, svo að alltaf þarf meira og meira af efninu til að sömu áhrif komi fram.
Annað dæmi um fíkn er þegar líkaminn verður ofurnæmur fyrir efninu, eða fyrir vísbendingum um efnið (svo sem þegar eitthvað minnir á efnið). Dæmi um það getur verið þegar manneskja haldin áfengisfíkn fer inn á bar, getur hún fengið yfirþyrmandi löngun til að neyta áfengis.
Enn er rökrætt um hvert eðli fíknar er, þ.e. hvort um sé að ræða “sjúkdóm í heila” eða geðröskun, en hvort heldur sem er, hafa margar leiðir fundist sem geta hjálpað manneskju úr viðjum fíknar.
Hugræn atferlismeðferð er ein þeirra leiða sem hafa fengið góðan rannsóknargrunn fyrir árangri. Undanfarin ár hafa meðferðaraðilar einnig notað EMDR (Eye Movement Desensitisation and Reprocessing) með góðum árangri í sumum tilvikum. 12 sporin eru enn ein leiðin sem notuð hefur verið til að vinna með fíkn, en sú leið hefur hjálpað fjöldamörgum.
Þegar unnið er með fíkn á sálfræðilegan hátt þarf að vinna með marga þætti samhliða og það sem virkar fyrir eina manneskju er ekki endilega það sama og virkar fyrir næstu manneskju. Einnig þarf að meta hvert markmið meðferðarinnar er, hvort hún er að bæta virkni í daglegu lífi, lífsgæði manneskjunnar eða að minnka eða stöðva alveg inntöku efnisins / hegðuninnar.
Hvað er reiði?
Reiði er tilfinning sem er okkur mönnunum jafn eðlislæg og gleðin til dæmis. Allir þekkja reiðina, rétt eins og gleðina. Reiði er eðlileg tilfinning í margbreytilegri tilfinningaflóru mannsins og ver okkur meðal annars fyrir hættum og ógn. Reiði getur gagnast okkur við að sýna öðrum ákveðin mörk, með því að gefa okkur kjark til þess að stöðva yfirgang annarra. Það er til dæmis ekki óeðlilegt að sé maður beittur órétti, bregðist maður við með reiði, því það eru eðlilegt varnarviðbragð.
Glími ég við reiðivanda?
Engin rós er án þyrna og svo er með reiðina að ef við höfum ekki stjórn á henni, þá er hún okkur ekki til framdráttar og verður hamlandi afl í lífi okkar. Reiðin getur þannig hafa áhrif á náin sambönd (t.d. valdið vinamissi og sambandsslitum) og leitt til vanda á vinnustað. Reiðin getur grafið undan góðu sjálfstrausti og leitt til sjálfsmatsvanda. Reiðin getur líka leitt af sér heilsufarslegan vanda, t.d. valdið háum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum og svefn- og meltingarvanda. Síðast en ekki síst skilar reiðin okkur sjaldan því sem við viljum ná fram.
Það er einstaklingsbundið hvenær fólk telur sig ekki hafa stjórn á reiðinni og áttar sig á að það glímir við reiðivanda. Besta leiðin til þess að meta hvort reiðin sé ráðandi og hamlandi afl í lífinu er einfaldlega að meta hvort reiðin leysi meiri vanda en ekki. Sé niðurstaðan sú að reiðinni fylgi meiri vandi en ekki, þá má segja að viðkomandi glími við reiðivanda og líklegt að neikvæðar hugsanir séu ríkjandi í daglegu lífi. Reiðin er sterkt afl og vandmeðfarið sem best er að hafa góða stjórn á svo við getum nýtt þessa tilfinningu okkur til framdráttar.
Get ég hætt að vera reið/reiður?
Rannsóknir hafa sýnt gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og atferlistilrauna við reiðivanda. Rót reiðivanda er stundum vegna þess að viðkomandi á erfitt með að sýna ákveðni. Þá þarf að vinna með ákveðniþjálfun. Markviss slökun getur verið góð viðbót við sálfræðilega gagnreynda meðferð. Markmið meðferðar við reiðivanda er ekki að þú hættir að finna til reiði, heldur að þú skiljir viðbrögð þín og getir útfært þau á þann hátt sem kemur sér best fyrir þig.
Allir geta lært að stjórna reiðinni; að staldra við og hamla viðbragði – líka þú.
Slepptu taki á reiðinni, leitaðu eftir sálfræðilegri aðstoð til þess að efla sjálfstjórnina, því fylgir mikið frelsi.
Samskipti eru flókið fyrirbæri og ekki sjálfgefið að þau gangi áfallalaust fyrir sig á lífsleiðinni. Við erum stöðugt í daglegum samskiptum, við fjölskyldu, vinnufélaga og vini. Við gegnum líka mismunandi hlutverkum í þessum samskiptum. Hlutverkum eins og maki, foreldri, systkin, dóttir eða sonur og svo vinur og vinnufélagi.
Öllum þessum hlutverkum fylgja ákveðin samskipti sem geta oft verið krefjandi og erfið. Hegðun, hugsun, atferli og viðbrögð í vissum aðstæðum eru þættir sem við tökum með okkur úr uppeldinu inn í fullorðinsárin. Við erum því með ýmislegt í farteskinu sem getur hugsanlega hamlað okkur í heilbrigðum samskiptum án þess að gera okkur grein fyrir því. Þeir sem við eigum í samskiptum við á lífsleiðinni hafa að öllum líkindum það sama í farteskinu. Einstaklingar koma úr ólíkum aðstæðum og hafa upplifað mismunandi viðmið og veruleikaheim.
Áföll, veikindi, stjórnsemi, valdaójafnvægi, meðvirkni og félagsleg staða okkar eru líkleg til að móta okkur í æsku og hafa áhrif á líf okkar og þeirra, er við erum í samskiptum við á fullorðinsárum.
Samskiptavandi getur því haft áhrif á allt líf okkar, hjóna- og parasamband okkar, samband okkar við börnin okkar og fjölskyldu. Einnig á vini og vinnufélaga. Samskiptavandi leiðir til vanlíðunar og einangrunar ef ekki er unnið markvist að greiningu hans og heilbrigðum samskiptum.
Er ég í ofbeldissambandi?
Bjarkarhlíð við Bústaðarveg veitir allar upplýsingar sem tengjast ofbeldi í nánum samböndum.
Meðvirkur einstaklingur upplifir sig oft háðan öðrum einstaklingi þar sem þeim meðvirka finnst hann eða hún vera fastur/föst í sambandi, sem einkennist af stjórnsemi. Oft eiga þessir einstaklingar erfitt með að koma sér út úr óheilbrigðum samböndum og eiga á hættu erfiðleika með að upplifa náin tengsl eða þiggja ást.
Meðvirkur einstaklingur reynir gjarnan að þóknast öðrum þó svo það sé jafnvel gegn hans eigin vilja. Hann treystir sífellt á skoðanir annarra um það hverjar hans eigin þarfir séu, því hann á oft erfitt með að greina eigin þarfir, en upplifir sig gjarnan sem sérfræðing í þörfum annarra og mikil orka fer í að uppfylla hamingju annarra frekar en að hlúa að sinni eigin hamingju. Hætta er á að einstaklingurinn fari að meta eigin verðleika í því hversu vel til tekst að þóknast öðrum.
Meðvirkir einstaklingar kenna sjálfum sér oft um þegar illa fer, eiga erfitt með að vera einir, segja jafnvel ekki skoðun sína vegna hræðslu um að vera hafnað. Þeir reyna jafnframt að hylma yfir með þeim sem þeir elska. Þeir upplifa gjarnar kvíða eða sektarkennd, án þess að geta tengt það við neitt sérstakt. Eiga erfitt með að tengjast öðrum og njóta stundarinnar. Meðvirkni getur þróast í tengslum við vímuefnaneyslu, fíkn á heimili, veikinda á heimili eða fötlun, geðröskun foreldris/fjölskyldumeðlims eða ofbeldi.
Meðvirkni ein og sér er nægjanleg ástæða til að leita sér aðstoðar, því að meðvirkum einstaklingi líður yfirleitt mjög illa og börn í meðvirkum fjölskyldum eiga oft erfitt. Hins vegar, ef hinn meðvirki lærir að þekkja vandann, leitar sér aðstoðar og byggir upp sjálfstraust sitt, þá er hægt að komast út úr þessum vítahring.
Í eðli okkar manneskja er þörfin fyrir að tilheyra. Við erum hópdýr og hér áður fyrr, áður en tækniöldin ruddi sér rúms, þýddi það vissan dauða að vera úthýst frá mannlegu samfélagi, enda manneskjan lítils megnug ein gegn náttúruöflunum. Það er því eitt það sárasta sem manneskja getur lent í, að finnast hún ekki tilheyra eða passa inn í með þeim manneskjum sem hún umgengst í lífi sínu.
Þegar manneskja verður fyrir því að verða endurtekið fyrir kerfisnbundinni hunsun eða áreiti annarra, annað hvort frá einum eða fleiri aðilum, er talað um einelti. Einelti getur verið af mörgum toga. Til dæmis er talað um andlegt, líkamlegt og rafrænt einelti. Allar tegundir eineltis eiga það só sameiginlegt að vera ofbeldi og að eiga aldrei rétt á sér.
Einelti getur átt sér stað á öllum aldri og í öllum stigum samfélagsins, bæði hjá börnum og fullorðnum, í skólum, á vinnustöðum, í vinahópum og jafnvel innan fjölskyldna.
Sálrænar afleiðingar eineltis geta verið djúpstæðar og jafnvel lífshættulegar. Algengt er að þolendur eineltis þjáist af kvíða, þunglyndi, lágu sjálfsmati og félagsfælni, svo dæmi séu nefnd. Hlúa þarf að þolendum eineltis og oft þarf að hjálpa þeim að vinna úr þeim afleiðingum sem þeir kljást við. Ekki síður þarf að vinna með gerendunum, sem rannsóknir sýna að eiga oft um sárt að binda líka.
Þegar einelti kemst upp er mikilvægt að unnið sé með málið af nærgætni og alúð. Greina þarf og uppræta þá hegðun sem í eineltinu felst og hjálpa þeim aðilum sem eiga hlut að máli að stíga inn í ný hegðunarmynstur. Vinna þarf með afleiðingar eineltisins, og misjafnt er eftir einstaklingum hvað lagt er áhersla á. Þannig er misjafnt hvaða sálfræðimeðferðum er beitt, en algengt er að unnið sé með afleiðingarnar með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar eða EMDR meðferðar (Eye Movement Desensitisation and Reprocessing Therapy).
Að missa tengslin við sína nánustu er afar sár reynsla og getur haft áhrif á líðan einstaklingsins allt hans lífsskeið. Margar ástæður geta verið fyrir rofnum tengslum. Alvarlegir geðsjúkdómar, ofbeldi af öllum toga, óleyst erfða- eða fjárhagsmál og óleyst fjölskyldumál. Ósætti og ágreiningur geta leitt til einangrunar einstaklings eða hóps innan fjölskyldna. Útskúfun, hunsun, skömm og reiði geta valdið miklum einmannaleika og vanlíðan.
Fjölskyldufræðingar taka mið af aðstæðum án þess að dæma eða vera með fyrirfram gefnar forsendur í viðkæmum málum sem þessum.
Við erum félagsverur og þó að það sé misjafnt hvað við höfum mikla þörf fyrir samveru þá eru það fæstir sem geta lifað lífinu án annarra. Það að finnast maður vera einmana þýðir að maður saknar návistar við aðra.
Miklar breytingar í lífinu ýta oft undir einmanaleika, svo sem:
Það þarf ekki alltaf ytri aðstæður til að upplifa einmanaleika. Það er hægt að upplifa hann innan um aðra, oft er það af því manni finnst maður ekki eiga samleið með þeim sem maður umgengst.
Það er eins með einmanaleikann eins og aðrar tilfinningar, maður getur notað hann til að átta sig í tilverunni. Þegar maður finnur sterkt fyrir einsemdinni er það ábending um að lífið sé ekki eins og maður vill hafa það og hvatning til að gera eitthvað í því.
Ef vanlíðanin hefur varað lengi og erfitt er að koma auga á lausnir getur verið gott að hafa samband við fagaðila sem hefur skilning og kunnáttu um vandann og getur veitt ráð og stuðning í átt að betri tilveru.
Sumir sem leita sálfræðings koma vegna afmarkaðs vanda s.s. samskiptavanda á vinnustað. Aðrir koma að leita sér meðferðar við vanda sem hrjáir þá í daglegu lífi, eins og kvíða eða þunglyndis. Áður en meðferð hefst er mikilvægt að kortleggja vandann vel og til þess þarf góða sögu. Sagan leggur grunninn að meðferðarvinnunni. Það fer síðan eftir eðli vandans hversu löng meðferðin getur orðið. Einstaklingsviðtal tekur að jafnaði um 50 mínútur.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er það meðferðarform sem oftast er beitt á kvíða og þunglyndi hjá okkur. HAM er oftast skammvinn meðferð þar sem unnið er markvisst að úrlausn vanda. Fjölmargar rannsóknir hafa rennt stoðum undir árangur meðferðarinnar og er mælt með henni sem fyrsta inngripi við kvíðarösknum áður en lyfjameðferð er reynd. Í meðferðinni skoða meðferðaraðili og skjólstæðingur hans samhengið á milli hugsana, tilfinninga og hegðunar. Oft er um að ræða neikvæðar hugsanir sem eiga rætur að rekja til einhvers grunnviðhorfs sem fólk hefur um hluti, aðstæður og/eða fólk.
Grunnviðhorfið er þó oft alls ekki staðreynd í raunveruleikanum og saman prófa aðilar sannleiksgildi viðhorfsins.
Margir spyrja hvað einkenni gott hjóna- og parasamband og svörin margþætt eftir því. Samt er það staðreynd að margir eiga í erfiðleikum með hamingjuríkt og ástsælt parasamband og eru ástæðurnar margvíslegar.
Trúnaðarbrot, ofbeldi, valdaójafnvægi, ágreiningur, gagnrýni og óvirk hlustun eru þættir sem hafa áhrif á parasambandið og oft er nauðsynlegt að fara til óháðs fagaðila sem getur hjálpað parinu, hvort sem það vill bæta sambandið, eða enda það.
Fjölskyldufræðingar vinna gjarnan út frá lausnarmiðaðri nálgun sem hefur gefið góða raun í hjóna- og parameðferð. Meðferðin fer fam á einstaklings- para- eða fjölskyldugrundvelli , allt eftir því hvað aðilar óska eftir.
Algengt er að fólk óski eftir greiningarviðtali vegna ADHD, svo dæmi sé nefnt.
Algengara er þó fólk eigi erfitt með að átta sig á hvers vegna því líður illa. Það á erfitt með að koma orðum að vanlíðan sinni. Það veit ekki hvert það á að leita. Auk þess getur fólk staðið ráðþrota og vonlaust frammi fyrir erfiðum tilfinningavanda hjá sínum nánustu. Í slíkum aðstæðum getur greiningarviðtalið verið stökkpallur í átt að rétta úrræðinu og fyrsta skrefið í átt að betri líðan.
Stundum kemur það fyrir að vandamál koma upp í hóp eða ákveðinn hópur verður fyrir sömu upplifun. Hvort um sig gæti verið ástæða til að hittast með aðstoð fagaðila og reyna annað hvort að leysa úr ágreiningi eða upplifa stuðning hvort af öðru í viðtalinu ef reynslan er sameiginleg.
Í hópviðtali þarf að gæta þess að allir fái tækifæri til þess að tjá sig. Einstaklingar geta upplifað sömu reynsluna á mismunandi hátt og haft þörf til þess að ræða og opna á sína upplifun. Þess vegna eru þessi viðtöl yfirleitt 75 – 100 mínútur í stað 50 mínútna.
I did then what I knew how to do.
Now that I know better, I do better.Maya Angelou
Yfirleitt er um að ræða samþættingu tveggja eða fleiri meðferðarleiða. Hér eru nokkrar þeirra sem reynst hafa vel.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er sú sálfræðimeðferð sem mestar rannsóknarheimildir liggja að baki í meðferð lyndis- og kvíðaraskana. Birtar hafa verið yfir 300 árangursrannsóknir um beitingu HAM við meðferð geðraskana. HAM gagnast vel við þunglyndi, almennri kvíðaröskun, skelfingarkvíða, áfallastreituröskun, áráttu- og þráhyggju, félagsfælni og sértækri fælni.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er víða orðin fyrsta val við ýmsum vanda.
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landlæknis er HAM fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi. Árangur af HAM við meðferð þessara raskana er í flestum tilfellum sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar. Lyfjameðferð og HAM fer ágætlega saman í sumum tilvikum eins og þegar skjólstæðingar eru að kljást við mjög alvarlegt þunglyndi. En í öðrum tilvikum bendir ýmislegt til að lyf geti truflað meðferð og mögulega dregið úr virkni HAM til lengri tíma. Þá er hætta á að einstaklingurinn tileinki lyfinu frekar en sjálfum sér árangurinn.
Hugmyndin á bak við HAM er sú að líðan okkar og hegðun ræðst af því hvernig við túlkum ákveðin atvik eða aðstæður. Í grófum dráttum gengur HAM út á það að finna þær hugsanir sem stuðla að vanlíðan, endurmeta þær og breyta þeim og að breyta þeirri hegðun sem viðheldur vandanum.
EMDR (Eye Movement Desensitzation and Reprocessing) er sálfræðileg meðferð upphaflega þróuð til þess að vinna úr afleiðingum áfallastreituröskunar. Rannsóknir hafa sýnt að EMDR meðferð er einnig gagnleg við smærri áföll, s.s. vegna eineltis, lágrar sjálfsmyndar og fælni svo eitthvað sé nefnt.
Sérstaða EMDR felst í að í aðferðinni eru notaðar aðrar eldri gagnreyndar sálfræðilegar aðferðir; s.s. hugræn atferlismeðferð (HAM). EMDR snýst um að vinna úr erfiðum minningum, hugsunum og tilfinningum. Skýringin á óþægilegum tilfinningum og jafnvel líkamlegum einkennum í daglegu lífi, getur legið í gömlum, sárum minningum sem ekki hefur verið unnið úr. Þegar EMDR meðferð er beitt virðist sem heilinn skrái minningar á nýjan hátt svo að þær valdi okkur ekki lengur vanlíðan. Við upplifum að viðhorf okkar taki breytingum, tilfinningalegur sársauki minnkar eða hverfur og líkamlegar upplifanir tengdar minningunum hverfa. Að lokum eru svo bjargráð til framtíðar virkjuð.
EMDR er einstaklingsmeðferð fyrir fólk sem orðið hefur fyrir erfiðri reynslu sem truflað hefur líf þess í lengri tíma og jafnvel árum saman.
Sálfræðingurinn fylgir sérstöku handriti með ákveðnum leiðbeiningum. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvaða minningu skuli vinna með, er minningin metin á kerfisbundinn hátt áður en úrvinnslan hefst. Við úrvinnslu eru fyrst og fremst notaðar augnhreyfingar en einnig annað tvíhliða áreiti svo sem að slá létt á sitt hvort hnéð eða fylgja punkti sem hreyfist frá hægri til vinstri. Í byrjun getur meðferðin reynst þungbær því minningin kemur oft sterkt í hugann en þegar líður á meðferðina minnka óþægindin og sársaukinn um leið og minningin fær nýja merkingu sem tengist nýjum hugsunum og tilfinningum.
Það fer eftir alvarleika áfalla og einkenna hversu lengi úrvinnslan stendur yfir. Flókin áföll eða minningar geta tekið langan tíma og þurft marga meðferðartíma.
EMDR meðferð hefur að jafnaði sýnt jafngóðan árangur og aðrar áfallamiðaðar nálganir. Bisson o.fl (2007) greindu 38 rannsóknir um áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð með einstaklingum, hugræna atferlismeðferð í hóp, EMDR og streitustjórnun. Niðurstöður Bisson og félaga sýndu fram á að EMDR og áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð virkuðu betur en aðrar meðferðir við áfallastreituröskun og ætti að mæla með þeim sem fyrsta meðferðarform við áföllum.
Bisson, J. I. (2007). Psychological treatments for chronic post-traumatic stress disorder: Systematic review and meta-analysis. The British Journal of Psychiatry, 190, 97-104.
I am not what happened to me,
I am what I chose to become.Carl Gustav Jung