EMDR (Eye Movement Desensitzation and Reprocessing) er sálfræðileg meðferð upphaflega þróuð til þess að vinna úr afleiðingum áfallastreituröskunar. Rannsóknir hafa sýnt að EMDR meðferð er einnig gagnleg við smærri áföll, s.s. vegna eineltis, lágrar sjálfsmyndar og fælni svo eitthvað sé nefnt.

Sérstaða EMDR felst í að í aðferðinni eru notaðar aðrar eldri gagnreyndar sálfræðilegar aðferðir; s.s. hugræn atferlismeðferð (HAM). EMDR snýst um að vinna úr erfiðum minningum, hugsunum og tilfinningum. Skýringin á óþægilegum tilfinningum og jafnvel líkamlegum einkennum í daglegu lífi, getur legið í gömlum, sárum minningum sem ekki hefur verið unnið úr. Þegar EMDR meðferð er beitt virðist sem heilinn skrái minningar á nýjan hátt svo að þær valdi okkur ekki lengur vanlíðan. Við upplifum að viðhorf okkar taki breytingum, tilfinningalegur sársauki minnkar eða hverfur og líkamlegar upplifanir tengdar minningunum hverfa. Að lokum eru svo bjargráð til framtíðar virkjuð.

EMDR er einstaklingsmeðferð fyrir fólk sem orðið hefur fyrir erfiðri reynslu sem truflað hefur líf þess í lengri tíma og jafnvel árum saman.
Sálfræðingurinn fylgir sérstöku handriti með ákveðnum leiðbeiningum. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvaða minningu skuli vinna með, er minningin metin á kerfisbundinn hátt áður en úrvinnslan hefst. Við úrvinnslu eru fyrst og fremst notaðar augnhreyfingar en einnig annað tvíhliða áreiti svo sem að slá létt á sitt hvort hnéð eða fylgja punkti sem hreyfist frá hægri til vinstri. Í byrjun getur meðferðin reynst þungbær því minningin kemur oft sterkt í hugann en þegar líður á meðferðina minnka óþægindin og sársaukinn um leið og minningin fær nýja merkingu sem tengist nýjum hugsunum og tilfinningum.

Það fer eftir alvarleika áfalla og einkenna hversu lengi úrvinnslan stendur yfir. Flókin áföll eða minningar geta tekið langan tíma og þurft marga meðferðartíma.
EMDR meðferð hefur að jafnaði sýnt jafngóðan árangur og aðrar áfallamiðaðar nálganir. Bisson o.fl (2007) greindu 38 rannsóknir um áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð með einstaklingum, hugræna atferlismeðferð í hóp, EMDR og streitustjórnun. Niðurstöður Bisson og félaga sýndu fram á að EMDR og áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð virkuðu betur en aðrar meðferðir við áfallastreituröskun og ætti að mæla með þeim sem fyrsta meðferðarform við áföllum.

Bisson, J. I. (2007). Psychological treatments for chronic post-traumatic stress disorder: Systematic review and meta-analysis. The British Journal of Psychiatry, 190, 97-104.

Hafðu samband

Skildu eftir skilaboð til okkar og við munum hafa samband við þig eins fljótt og mögulegt er.

Ekki læsilegt? Breyta texta. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: