Að missa ástvin er reynsla sem við flest verðum fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni. Þegar mikilvægir ástvinir hverfa á braut verður lífið aldrei samt. Í hönd fer tími þar sem manneskja neyðist til að finna á ný jafnvægi sitt og stað í heimi án þeirrar manneskju sem horfin er á braut, og það getur verið ein erfiðasta reynsla sem manneskja hefur gengið í gegnum á lífsleiðinni.

Sorginni fylgja margar erfiðar tilfinningar og það getur verið erfitt að vita hvernig bregðast á við. Reiði, depurð, sektarkennd, örvænting og ótti eru allt eðlilegar tilfinningar á þeim erfiðu tímum sem í hönd fara eftir missi. Það er eðlilegt fyrir manneskju í sorg að vera döpur, sorgmædd, dofin, erfið í skapi, illa áttuð, gleymin eða sýna önnur einkenni vanlíðunar. Ákveðnir tíma geta verið erfiðari en aðrir. Hátíðisdagar, afmælisdagar, dánardagar, brúðkaupsafmæli og aðrir stórir dagar í lífi fjölskyldunnar geta rifið upp sárin.

Það er afskaplega einstaklingsbundið hversu langan tíma það tekur fólk að jafna sig eftir fráfall ástvinar og veltur á mörgum samverkandi breytum og því er eðlilegt að fólk sveiflist með sorginni í langan tíma. Fólk lærir að lifa með missinum en þótt fenni í sporin þarf ekki að vera að sársaukinn hverfi nokkurn tímann alveg. Við erum þó þannig hönnuð að líkt og með hin líkamlegu sár, eiga hin andlegu sár að gróa líka. Rétt eins og með líkamlegu sárin situr svo örið eftir sem ljúfsárt minnismerki um það sem var, en sárið sjálft hefur gróið.

Stundum gerist það þó að sorg eftir lát ástvinar er svo yfirþyrmandi eða erfið að okkur tekst ekki að græða sárin á eigin spýtur. Þegar svo er í pottinn búið er ráðlegt að leita fagaðstoðar, en sálfræðilegar meðferðir hafa reynst vel.

Hafðu samband

Skildu eftir skilaboð til okkar og við munum hafa samband við þig eins fljótt og mögulegt er.

Ekki læsilegt? Breyta texta. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: