Hvað er reiði?

Reiði er tilfinning sem er okkur mönnunum jafn eðlislæg og gleðin til dæmis. Allir þekkja reiðina, rétt eins og gleðina. Reiði er eðlileg tilfinning í margbreytilegri tilfinningaflóru mannsins og ver okkur meðal annars fyrir hættum og ógn. Reiði getur gagnast okkur við að sýna öðrum ákveðin mörk, með því að gefa okkur kjark til þess að stöðva yfirgang annarra. Það er til dæmis ekki óeðlilegt að sé maður beittur órétti, bregðist maður við með reiði, því það eru eðlilegt varnarviðbragð.

Glími ég við reiðivanda?

Engin rós er án þyrna og svo er með reiðina að ef við höfum ekki stjórn á henni, þá er hún okkur ekki til framdráttar og verður hamlandi afl í lífi okkar. Reiðin getur þannig hafa áhrif á náin sambönd (t.d. valdið vinamissi og sambandsslitum) og leitt til vanda á vinnustað. Reiðin getur grafið undan góðu sjálfstrausti og leitt til sjálfsmatsvanda. Reiðin getur líka leitt af sér heilsufarslegan vanda, t.d. valdið háum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum og svefn- og meltingarvanda. Síðast en ekki síst skilar reiðin okkur sjaldan því sem við viljum ná fram.
Það er einstaklingsbundið hvenær fólk telur sig ekki hafa stjórn á reiðinni og áttar sig á að það glímir við reiðivanda. Besta leiðin til þess að meta hvort reiðin sé ráðandi og hamlandi afl í lífinu er einfaldlega að meta hvort reiðin leysi meiri vanda en ekki. Sé niðurstaðan sú að reiðinni fylgi meiri vandi en ekki, þá má segja að viðkomandi glími við reiðivanda og líklegt að neikvæðar hugsanir séu ríkjandi í daglegu lífi. Reiðin er sterkt afl og vandmeðfarið sem best er að hafa góða stjórn á svo við getum nýtt þessa tilfinningu okkur til framdráttar.

Get ég hætt að vera reið/reiður?

Rannsóknir hafa sýnt gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og atferlistilrauna við reiðivanda. Rót reiðivanda er stundum vegna þess að viðkomandi á erfitt með að sýna ákveðni. Þá þarf að vinna með ákveðniþjálfun. Markviss slökun getur verið góð viðbót við sálfræðilega gagnreynda meðferð. Markmið meðferðar við reiðivanda er ekki að þú hættir að finna til reiði, heldur að þú skiljir viðbrögð þín og getir útfært þau á þann hátt sem kemur sér best fyrir þig.

Allir geta lært að stjórna reiðinni; að staldra við og hamla viðbragði – líka þú.

Slepptu taki á reiðinni, leitaðu eftir sálfræðilegri aðstoð til þess að efla sjálfstjórnina, því fylgir mikið frelsi.

Hafðu samband

Skildu eftir skilaboð til okkar og við munum hafa samband við þig eins fljótt og mögulegt er.

Ekki læsilegt? Breyta texta. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: