Það er í eðli manneskjunnar að hafa gaman af því að breyta vitundarástandi sínu. Til þess notum við margar leiðir, svo sem að fara í skemmtigarða, fara í veislur, spila á spil eða neyta efna á borð við áfengi, tóbak eða önnur lyf. Að lyfta sér upp í hverdeginum getur verið gaman. En þegar neysla okkar eða hegðun fer að trufla daglegt líf og virkni eða valda skaða á einhvern hátt, þá er neyslan komin úr böndunum. Talað er um fíkn þegar neyslan hefur áhrif á líf okkar með því trufla vinnu, samskipti eða eigin heilsu.

Þegar um fíknivandamál er rætt dettur flestum í hug vímuefni eða lyf, en í raun má segja að hægt sé að þróa með sér fíkn í hvaðeina sem hægt er að nota til að breyta tilfinningaástandi. Þannig er oft talað um spilafíkn, kaupfíkn eða líkamsræktarfíkn.

Fíkn getur því verið bæði líkamleg og andleg. Þegar um líkamlega fíkn er að ræða hefur líkaminn vanist því að ákveðið efni sé til staðar, svo þegar neyslu efnisins er hætt eða neyslan minnkuð, koma fram fráhvarfseinkenni. Fólk myndar þol gagnvart efninu sem fíknin beinist að, svo að alltaf þarf meira og meira af efninu til að sömu áhrif komi fram.

Annað dæmi um fíkn er þegar líkaminn verður ofurnæmur fyrir efninu, eða fyrir vísbendingum um efnið (svo sem þegar eitthvað minnir á efnið). Dæmi um það getur verið þegar manneskja haldin áfengisfíkn fer inn á bar, getur hún fengið yfirþyrmandi löngun til að neyta áfengis.

Fíkn getur hins vegar einnig verið andleg, og í raun má segja að það sé andlega hliðin sem oftast vefst fyrir fólki. Líkaminn losar sig svo dæmi sé tekið við nikótín úr líkamanum á þremur dögum, en samt getur fólk barist við að hætta að reykja árum, jafnvel áratugum saman, án þess að ná að losa sig úr viðjum fíknarinnar. Ástæðan er sú að fólk notar oft hegðun eða efni til að róa tilfinningar sínar og losa um streitu, og ef ekki er unnið með rót vandans og/eða að finna aðrar og hjálplegri leiðir til að ráða við tilfinningar sínar er oft erfitt að ráða niðurlögum fíknar.

Enn er rökrætt um hvert eðli fíknar er, þ.e. hvort um sé að ræða “sjúkdóm í heila” eða geðröskun, en hvort heldur sem er, hafa margar leiðir fundist sem geta hjálpað manneskju úr viðjum fíknar.

Hugræn atferlismeðferð er ein þeirra leiða sem hafa fengið góðan rannsóknargrunn fyrir árangri. Undanfarin ár hafa meðferðaraðilar einnig notað EMDR (Eye Movement Desensitisation and Reprocessing) með góðum árangri í sumum tilvikum. 12 sporin eru enn ein leiðin sem notuð hefur verið til að vinna með fíkn, en sú leið hefur hjálpað fjöldamörgum.

Þegar unnið er með fíkn á sálfræðilegan hátt þarf að vinna með marga þætti samhliða og það sem virkar fyrir eina manneskju er ekki endilega það sama og virkar fyrir næstu manneskju. Einnig þarf að meta hvert markmið meðferðarinnar er, hvort hún er að bæta virkni í daglegu lífi, lífsgæði manneskjunnar eða að minnka eða stöðva alveg inntöku efnisins / hegðuninnar.

Hafðu samband

Skildu eftir skilaboð til okkar og við munum hafa samband við þig eins fljótt og mögulegt er.

Ekki læsilegt? Breyta texta. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: