Í greiningarviðtalinu er lagt mat á það hvers vegna þér eða öðrum sem standa þér nær líður illa. Til þess að sálfræðimeðferð skili árangri er nauðsynlegt að greina þá þætti sem viðhalda vanlíðaninni og bera kennsl á þau meðferðarúrræði sem henta best að hverju sinni.

Greiningarviðtalið er því oftar en ekki fyrsta skrefið í sálfræðilegri meðferð. Það getur þó einnig staðið eitt og sér þegar leitað er eftir að auka skilning á vandanum eða komast að formlegri greiningu. Algengt er að fólk óski eftir greiningarviðtali vegna þunglyndis, kvíðavanda, ADHD, mikilla áhyggja, streitu, hjónabandserfiðleika og pirrings, svo dæmi séu nefnd.

Algengara er þó fólk eigi erfitt með að átta sig á hvers vegna því líður illa. Það á erfitt með að koma orðum að vanlíðan sinni. Það veit ekki hvert það á að leita. Auk þess getur fólk staðið ráðþrota og vonlaust frammi fyrir erfiðum tilfinningavanda hjá sínum nánustu. Í slíkum aðstæðum getur greiningarviðtalið verið stökkpallur í átt að rétta úrræðinu og fyrsta skrefið í átt að betri líðan.