Talað er um áfallastreitu þegar manneskja hefur orðið fyrir skelfilegri lífsreynslu, svo sem orðið vitni að vofeiflegum atburði, lent í líkamsárás eða nauðgun, valdið slysi og fleira. Viðkomandi getur þá fyllst hjálparleysi, ótta eða hryllingstilfinningu.
Einkenni áfallastreitu eru:

  • Að endurupplifa hinn skelfilega atburð á einhvern hátt (í vöku eða draumi)
  • Reyna að sneiða hjá aðstæðum og deyfa hjá sjálfum sér allt sem minnir á atvikið (tilfinningalegur dofi og minnisleysi)
  • Vera ,,ofurviðbrigðinn” eða hrökkva í kút af minnsta tilefni
  • Þjást af svefntruflunum, einbeitingarerfiðleikum, reiðiköstum
  • Fá martraðir
  • “Flashbacks” eða tilfinning um að vera aftur staddur í atvikinu og finna jafnvel lykt og heyra hljóð sem tilheyrðu atvikinu.

Áfallastreitueinkennin líða oftast hjá og eru ekki flokkuð sem geðröskun.

Áfallastreituröskun

Áfallastreituröskun (post-traumatic stress disorder, PTSD) flokkast hins vegar sem geðröskun. Áfallastreituröskun er greind þegar einkenni áfallastreitu eru mikil og ná ákveðnu hámarki. Einkennin hafa varað í meira en mánuð og orsakað alvarlegan vanda og vanlíðan í einkalífi og starfi eða daglegu lífi almennt.
Hér fyrir neðan má finna fræðslumyndband um áfallastreitu.

  • Ýmis áföll geta valdið áfallastreituröskun
  • Einkenni þurfa að hafa verið til staðar í a.m.k. einn mánuð til að hægt sé að greina PTSD
  • Hugræn atferlismeðferð og/eða EMDR eru oft hjálpleg við áfallastreitu
  • Allir geta fengið áfallastreitu